Enska í Kent School of English sumarið 2021

Enskunám í Englandi fyrir unglinga. Verð ca. 285 þúsund (nánast allt innifalið)

Sóðast  seldist upp í ferðina fyrir 13 til 16 ára.

  • Reynslumiklir ísl. hópstjórar

  • Flug og allar ferðir

  • Enskukennsla í Kent School of English

  • Ferðir og dagskrá á vegum skólans

  • Gisting hjá fjölskyldu

  • Fullt fæði

Enska í Kent School of English sumarið 2021

Enskuskóli Erlu Ara hefur allt frá 1994 boðið upp á námsferðir í  enskuskóla til Englands.  Fyrstu sex árin eingöngu fyrir hópa af fullorðnu fólki en sumarið 2021 verður tuttugasta sumarið sem einnig er boðið upp á námsferðir fyrir unglinga. Rúmlega eitt þúsund unglingar hafa því komið með okkur í þessar ferðir.

Enskunám í Kent School of English (fyrir 13-16 ára, elstu árgangar grunnskólans)

Staður: Broadstairs er vinalegur 25 þúsund íbúa sjávarbær og sumarleyfisstaður á suðausturströnd Englands.  Broadstairs er skammt frá Canterbury og Dover (tæplega tveggja tíma akstur frá London)

Tími: 8-21. ágúst: (tvær kennsluvikur) Farið út á hádegi sunnudags og komið heim síðdegis á laugardeginum 21. ágúst  Verð: ca 285  þúsund  (miðað við að gengi pundsins sé 180 isl. kr og getur því hækkað eða lækkað þegar lokagreiðsla fer fram.) Innifalið í verði: Flug, ferðir til og frá flugvelli í Englandi, enskunámskeiðið, gisting, fullt fæði, allar ferðir og uppákomur á vegum skólans svo og þjónusta hópstjóra  sem eru með hópnum allan tímann.

Skólinn: Kent School of English sem er viðurkenndur af British Council, hefur starfað síðan árið 1972. Skólinn leggur áherslu á að bjóða upp á fjölbreytta, fyrsta flokks kennslu sérmenntaðra kennara og sérhæfir sig í að taka á móti hópum nemenda frá hinum ýmsu löndum á sumrin. www.kentschoolofenglish.com

Kennsla: Fer fram í 12 manna hópum sem raðað er í eftir getu. Rík áhersla er lögð á að þjálfa hlustun og tal og miðast mörg verkefnin að því að láta nemendur frá mismunandi þjóðernum vinna saman. Allt námsefni er innifalið. Hefðbundin kennsla fer fram í skólanum á morgnana og auk þess eftir hádegi á þriðjudögum.  Eftir hádegi á mánudögum, fimmtudögum og föstudögum taka nemendur þátt í hinum ýmsu  uppákomum með kennurum og öðrum nemendum skólans og á miðvikudögum eftir hádegi er boðið upp á ferð til Canterbury.
Afþreying og skemmtun: Eftir hádegi og á kvöldin taka nemendur þátt í dagskrá á vegum skólans. Einnig er í  hverri viku boðið upp á eina síðdegisferð (farið verður til Canterbury) og dagsferð á laugardeginum (Cambridge ).  Afþreyingin er af ýmsum toga svo sem leiklist, tónlist, tennis, blak, og  keila.  Á kvöldin getur afþreyingin falist í diskóteki, hlöðuballi, bíóferð og karaoki.

Gisting og uppihald: Nemendur dvelja hjá fjölskyldum þar sem þeir fá morgunmat og kvöldverð alla virka daga en allar þrjár máltíðir um helgar (nesti í hádeginu). Innifalið í verði eru sérstakir matarmiðar sem nemandinn getur notað á ýmsum stöðum í Broadstairs til þess að kaupa sér hádegismat virka daga. Nemandinn dvelur oftast í tveggja manna herbergi eða stærra.   Lögð er áhersla á að tveir nemendur af sama þjóðerni dvelji saman hjá fjölskyldunni.  Fjölskyldan sér um léttan þvott og útvegar handklæði og rúmföt. Heimilin eru flestöll í göngufæri frá skólanum.
Ef nemandi hefur einhverjar sérþarfir (grænmetisæta, mjólkuróþol, ofnæmi og fl.) þá endilega látið Erlu Aradóttur vita sem fyrst. Minniháttar aukagjald bætist við vegna sér fæðuþarfa.

Af fenginni reynslu hefur sú ákvörðun verið tekin að ekki er hægt að bjóða einstaklingum að taka þátt í námsferðinni sem þurfa á aðstoð við lyfjagjöf að halda og einnig er bent á að því miður hefur það sýnt sig að mörg börn sem eru með athyglisbrest eða ofvirkni hafa engan vegin verið að fá þá kennslu sem þeim hentar og hafa þar af leiðandi í sumum tilfellum flosnað upp úr náminu.  Í námsferðum sem slíkum er gert ráð fyrir að nemendur geti fylgt þeirri dagskrá sem boðið er upp á og þar af leiðandi er mjög mikilvægt að þeir fylgist vel með, viti hvar og hvenær eigi að mæta á ákveðna staði og valdi því ekki að heill hópur bíði eftir þeim og jafnvel missi af atburðum vegna einstaklinga sem ekki standa sig.Einnig skal það skýrt tekið fram að unglingar sem reykja eru ALLS EKKI VELKOMNIR MEÐ Í FERÐINA og að öll áfengisneysla er að sjálfsögðu óheimil.

Íslenskir hópstjórar: Íslenskir hópstjórar fylgja nemendum út og heim aftur til Íslands auk þess að vera til staðar allan tímann.