English at Kent School of English sumarið 2018

Enskuskóli Erlu Ara hefur allt frá 1994 boðið upp á námsferðir í  enskuskóla til Englands.  Fyrstu sex árin eingöngu fyrir hópa af fullorðnu fólki en sumarið 2018 verður átjánda sumarið sem einnig er boðið upp á námsferðir fyrir unglinga. Rúmlega eitt þúsund unglingar hafa því komið með okkur í þessar ferðir.

Enskunám í Kent School of English (fyrir 13-16 ára, elstu árgangar grunnskólans)

Staður: Broadstairs er vinalegur 25 þúsund íbúa sjávarbær og sumarleyfisstaður á suðausturströnd Englands.  Broadstairs er skammt frá Canterbury og Dover (tæplega tveggja tíma akstur frá London)

Tími: 17-30. júní: (tvær kennsluvikur) Farið út seinniparts sunnudags og komið heim síðdegis á laugardeginum 30. júní Verð: 245 þúsund

Skólinn: Kent School of English sem er viðurkenndur af British Council, hefur starfað síðan árið 1972. Skólinn leggur áherslu á að bjóða upp á fjölbreytta, fyrsta flokks kennslu sérmenntaðra kennara og sérhæfir sig í að taka á móti hópum nemenda frá hinum ýmsu löndum á sumrin. www.kentschoolofenglish.com

Kennsla: Fer fram í 12 manna hópum sem raðað er í eftir getu. Rík áhersla er lögð á að þjálfa hlustun og tal og miðast mörg verkefnin að því að láta nemendur frá mismunandi þjóðernum vinna saman. Allt námsefni er innifalið. Hefðbundin kennsla fer fram í skólanum á morgnana og auk þess eftir hádegi á þriðjudögum og fimmtudögum.  Eftir hádegi á mánudögum og föstudögum taka nemendur þátt í hinum ýmsu íþróttaleikjum og uppákomum með kennurum skólans og á miðvikudögum eftir hádegi er boðið upp á ferð til Canterbury.

Afþreying og skemmtun: Eftir hádegi og á kvöldin taka nemendur þátt í dagskrá á vegum skólans. Einnig er í  hverri viku boðið upp á eina síðdegisferð (Farið verður til Canterbury) og dagsferð á laugardeginum (Cambridge ).  Afþreyingin er af ýmsum toga svo sem leiklist, tónlist, tennis, blak og keila.  Á kvöldin getur afþreyingin falist í diskóteki, hlöðuballi, bíóferð og karaoki.

Gisting og uppihald: Nemendur dvelja hjá fjölskyldum þar sem þeir fá morgunmat og kvöldverð alla virka daga en allar þrjár máltíðir um helgar (nesti í hádeginu).  Innifalið í verði eru sérstakir matarmiðar sem nemandinn getur notað á ýmsum stöðum í Broadstairs til þess að kaupa sér hádegismat. Nemandinn dvelur oftast í tveggja manna herbergi eða stærra.    Lögð er áhersla á að tveir nemendur af sama þjóðerni dvelja saman hjá sömu fjölskyldunni nema óskað sé eftir að nemandi verði ekki með öðrum af sama þjóðerni en það skal tekið fram að fyrrgreint fyrirkomulag hefur reynst afar vel.   Fjölskyldan sér um léttan þvott og útvegar handklæði og rúmföt. Heimilin eru í göngufæri frá skólanum.

Ef nemandi hefur einhverjar sérþarfir (grænmetisæta, ofnæmi og fl.) þá endilega látið Erlu Aradóttur vita sem fyrst.  

Af fenginni reynslu hefur sú ákvörðun verið tekin að ekki er hægt að bjóða einstaklingum að taka þátt í námsferðinni sem þurfa á aðstoð við lyfjagjöf að halda og einnig er bent á að því miður hefur það sýnt sig að mörg börn sem eru með athyglisbrest eða ofvirkni hafa engan vegin verið að fá þá kennslu sem þeim hentar og hafa þar af leiðandi í sumum tilfellum flosnað upp úr náminu.  Í námsferðum sem slíkum er gert ráð fyrir að nemendur geti fylgt þeirri dagskrá sem boðið er upp á og þar af leiðandi er mjög mikilvægt að þeir fylgist vel með, viti hvar og hvenær eigi að mæta á ákveðna staði og valdi því ekki að heill hópur bíði eftir þeim og jafnfvel missi af atburðum vegna einstaklinga sem ekki standa sig.

Einnig skal það skýrt tekið fram að unglingar sem reykja eru ALLS EKKI VELKOMNIR MEÐ Í FERÐINA.

Íslenskir hópstjórar: Íslenskir hópstjórar fylgja nemendum út og heim aftur til Íslands auk þess að vera til staðar allan tímann.

Umsagnir: 

 • Hæ Erla
 • Langaði að þakka ykkur fyrir stelpuna hún hitti okkur alsæl og hamingjusöm Nú hef ég sent þrjár dætur mínar með þér til Englands og þær koma allar heim með lífsreynslu sem þær minnast mörgum sinnum á ári .Hún var sérlega ánægð með hópstjórana og kennarana í skólanum. Sýnist að allt hafi verið eins og smurð vél þarna hjá ykkur Takk fyrir okkur
 • B.kvHelgaVið viljum líka senda til baka þakkir til þín og þíns starfsfólks. Dóttir okkar  Rún var í enskuskólanum og hún naut hverrar mínútu –  það var svo gaman :) Hún fékk ekki bara að upplifa að bæta sig í ensku heldur náði hún smá feimni úr sér í leiðinni, það er ekki slæmt :)Takk fyrir Erla, þetta er eitthvað sem hún tekur með sér áfram út í lífið. Hún lítur öðrum augum á enskuna en hún var með frekar mikla fælni að tala ensku og hafði lítið sjálfsálit á að hún gæti bara yfir höfuð lært enskuna og bætt sig, það hefur svo sannarlega breyst.Takk og takk,

  Með bestu kveðjum, Díana og Guðjón foreldrar  Rúnar

 • Sæl Erla
  Ég vil bara þakka fyrir stelpuna mína, Rakel hún var alveg alsæl með ferðina til Englands, mér fannst nú á henni að hún hafi nú ekkert verið tilbúin að koma heim strax :)
  Takk takk
  kv Guðný
  Stykkishólmi.
 • Sæl Erla,mig langaði bara að segja þér frá því hvað Enskuskólinn hefur gert Guðrúnu gott, ég spurði þig áður en hún fór hvort þetta nám hefði hjálpað til við enskunámið þegar heim var komið og þú sagðir mér að að minnsta kosti yrðu krakkarnir öruggari með sig þó svo að kannski væri það ekki sjáanlegt í einkunnum. En Guðrún hefur átt í erfiðleikum með lestur, er greind lesblind þó það hái henni ekki mikið nema í tungumálanámi, og þetta hefur hjálpað henni alveg svakalega mikið sem sýnir sig best í einkunnum en frá því í vor og fram að jólaprófum hækkaði hún sig um 2 heila í enskunni og kennarinn sagðist ekki hafa séð svona árangur hjá neinum  sem farið hefur í enskuskóla erlendis. Að vísu hafa hinir krakkarnir sem fóru að læra ensku eitthvað annað og voru bara tvær vikur og núna er kennarinn sannfærður um að þriðja vikan skipti öllu máli og ég held að ég sé henni sammála. En mig langaði bara að segja þér frá þessu, því ánægðir nemendur og framför í tungumálinu hlítur að vera það sem þú vilt heyra af.Bestu kveðjur,Hrönn
 • Sæl Erla.
  Ég heiti Jónína og er mamma hans Magnúsar  sem fór með þér til Broadstairs s.l. sumar. Mig langar til að þakka þér kærlega fyrir hann og það sem þú gerðir fyrir hann þarna úti. Hann hafði mjög gaman af dvölinni, lenti hjá yndislegri fjölskyldu, (Saunders- fjölskyldunni) sem ég mæli hiklaust með og gef mín bestu meðmæli. Það var mjög gott að vita af “gullkálfinum sínum” í svona góðum höndum, sérstaklega þegar hann er kominn í annað land. Hann fékk mikið sjálfstraust bæði í að tala ensku og eins var gott fyrir hann að kynnast því að vera í stærra og fjölmennara samfélagi bæði í skólanum og hjá fjölskyldunni. Hann kemur úr 150 manna sveitarfélagi og úr skóla þar sem eru 17 nemendur. Hann tók að gamni sínu samræmt próf s.l vor í ensku og ákvað að prufa að taka enskuna í fjarnámi frá Ármúlanum í vetur, en hann er nemandi í 10. bekk hér á Borgarfirði.Bestu kveðjur frá okkur báðum
  Jónína
 • Sæl Erla,
  Mig langaði til að þakka þér kærlega fyrir dömuna mína. Hún er enn í skýjunum með ferðina og segir að öll ferðin hafi farið fram úr björtustu vonum. Þær voru greinilega mjög lánsamar með heimili og erum við foreldrarnir mjög þakklát fyrir það ;)
  Kær kveðja
  Hulda (mamma Bjarkar)

 

 

Samningur: Foreldrar eða forráðamenn ásamt nemendum eru vinsamlegast beðnir um að undirrita samning (sjá sýnishorn af samningi hér að neðan) og afhenda hann á fundi sem haldinn verður í maí.

Heildarverð: ca 245.000  

Innifalið í verði: Flug, ferðir til og frá flugvelli í Englandi, enskunámskeiðið, gisting, fullt fæði, allar ferðir og uppákomur á vegum skólans svo og þjónusta hópstjóra  sem eru með hópnum allan tímann.

Nánari upplýsingar og eða skráning: Hikið ekki við að hafa samband við Erlu Aradóttur í síma 8917576  og erlaara@enskafyriralla.is

 

Sýnishorn af samningi sem forráðamaður og nemandi skrifa undir þegar þar að kemur

Reglur:           öll áfengisneysla að sjálfsögðu óheimil

                        hlíta ber reglum varðandi útivist

                        stundvísi og skyldumæting í alla tíma og dagskrá á vegum skólans

                        kurteisi og góð umgengni á heimilum í skólanum og annars staðar

 

Ef nemandi hegðar sér illa í tímum geta skólayfirvöld neitað að hafa hann í tíma.

Einnig gæti fjölskylda neitað að hafa nemanda lengur hjá sér ef hann er ókurteis og kemur heim á röngum tíma.

Ef nemandi brýtur ofangreindar reglur getur þurft að senda hann heim til Íslands á kostnað forráðamanns hans.

Nafn: forráðamanns: ________________________________________________________

Nafn nemanda:____________________________________________